Fótbolti

Skotar eru ekki bjartsýnir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Skoskir stuðningsmenn þykja skrautlegir og skemmtilegir.
Skoskir stuðningsmenn þykja skrautlegir og skemmtilegir. Nordic Photos / AFP

James Traynor, blaðamaður hjá The Daily Record, segir að væntingar Skota fyrir landsleikinn á miðvikudaginn séu ekki miklar. Liðið verði þó hreinlega að vinna sigur.

Vísir hafði samband við Traynor en hann mun koma hingað til lands til að fylgjast með leik Íslands og Skotlands á miðvikudagskvöldið. Skotar töpuðu um helgina sínum fyrsta leik í undankeppni HM 2010, fyrir Makedóníu á útivelli, 1-0.

„Við þurfum að fá öll þrjú stigin," sagði Traynor. „Það var ætlunin að fá minnst fjögur stig úr þessum tveimur leikjum og eftir þessa arfaslöku byrjun á laugardaginn er það ekki einu sinni möguleiki. Ef við töpum hins vegar á miðvikudaginn er ljóst að við munum ekki komast á HM."

Hann sagði að Skotar höfðu fyrirfram vonast til þess að ná öðru sætinu í riðlinum. „Enginn bjóst við því að við myndum ná efsta sætinu af Hollendingum en við bundum vonir við að ná inn í umspilið og vera með einn besta árangurinn í öðru sæti."

„Ég á von á mjög vel stemmdu íslensku liði á miðvikudaginn eftir úrslitin í Noregi. Það var mjög öflugt hjá þeim að ná að jafna eftir að hafa lent tvívegis undir."

Hann á því von á erfiðum leik fyrir Skotana. „Jafnvel þótt Skotar muni spila vel býst enginn við því að þeir muni skora mörg mörk. Skoska landsliðið skorar yfir höfuð ekki mikið af mörkum. Það myndi því enginn vera svekktur yfir því að vinna 1-0 sigur í afar leiðinlegum leik. Við þurfum stigin fyrst og fremst, frammistaðan er aukaatriði."

„Það er óhætt að segja að það ríki ekki mikil bjartsýni meðal stuðningsmanna skoska liðsins fyrir þennan leik. Þjálfarinn er þó nokkuð bjartsýnn en hann verður að vera það því hann hefur verið mikið gagnrýndum í fjölmiðlum vegna leiksins á laugardaginn."

Traynor á þó ekki von á því að Burley muni missa starfið sitt ef Ísland vinnur á miðvikudaginn. „Það má ekki gleyma því að Skotland hefur ekki komist á stórmót síðan 1998. Skoska knattspyrnusambandið hefur því ekki jafn mikinn pening á milli handanna eins og áður og hefur ekki efni á því að ráða þjálfara úr allra fremstu röð. Ef ekki Burley - hver þá?"

Hann telur það Íslendingum einnig til tekna að liðið á knattspyrnumann sem er hvað líklegastur að teljast í heimsklassa af þeim leikmönnum sem munu spila á miðvikudaginn. „Við höfum ekki átt leikmann sem hefur náð jafn langt og Eiður Smári lengi en þar fyrir utan vitum við að Ísland á marga frambærilega knattspyrnumenn."

„Það má þó búast við því að það verði mjög einbeittir Skotar sem muni mæta til leiks á miðvikudaginn. Þeir vita að þeir verða að sækja til sigurs. Leikmennirnir hafa bara ekki efni á því að tapa leiknum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×