Íslenski boltinn

Yfirlýsing frá knattspyrnudeild Breiðabliks

Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur sent frá sér tilkynningu vegna ummæla formanns knattspyrnudeildar Vals sem fram komu í Fréttablaðinu og birtust hér á Vísi.

Málið tengist framherjanum Prince Rajcomar hjá Breiðablik og áhuga Valsmanna á að fá leikmanninn í sínar raðir.

Hér fyrir neðan má sjá tilkynninguna frá Knattspyrnudeild Breiðabliks:

Efni: Ummæli formanns knattspyrnudeildar Vals varðandi fyrirspurn Vals um Prince Rajcomar

Knattspyrnudeild Breiðabliks vill koma eftirfarandi á framfæri í tengslum við svar formanns knattspyrnudeildar Vals þegar hann var spurður af fréttamanni Vísis* um það hvort Valur hefði leitað eftir því að fá Prince Rajcomar frá Breiðabliki:

Í fyrsta lagi er það ekki rétt að spurst hafi verið óformlega fyrir um Prince Rajcomar. Þann 8. júlí bar Valur upp formlega fyrirspurn um lán eða leigu á leikmanninum.

Í öðru lagi vita Valsmenn ekki hvað leikmaðurinn er með í laun nema þeir hafi haft samband við hann sjálfan í heimildarleysi og fengið það uppgefið sem er alvarlegt brot á reglugerðum KSÍ.

Í þriðja lagi er það því ekki rétt að ástæðan fyrir því að ekkert varð úr félagsskiptum sú að Valsmenn hafi ekki "treyst sér í launapakkann". Ástæðan er sú að Breiðablik hafnaði beiðni Vals um viðræður um leikmanninn. Það má bæta því við að það þætti saga til næsta bæjar ef Valur treysti sér ekki til að semja við leikmann vegna launakostnaðar.

Að framansögðu er ljóst að rangt var skýrt frá málsatvikum af hálfu formanns knattspyrnudeildar Vals.

Með kveðju,

Svavar Jósefsson, framkvæmdastjóri

Knattspyrnudeild Breiðabliks

* -Formaður Vals talaði við fréttamann frá Fréttablaðinu í umræddu viðtali.

Smelltu á tengilinn hér fyrir neðan til að lesa fréttina frá í morgun. 














Fleiri fréttir

Sjá meira


×