Innlent

Þýskir innistæðureigendur Kaupþings þakka þjóðinni fyrir velvild

Karlheinz Bellmann kom hingað á dögunum á vegum þýskra innistæðueigenda.
Karlheinz Bellmann kom hingað á dögunum á vegum þýskra innistæðueigenda.

Hópur Þjóðverja, sem átti innistæður á reikningum Kaupþing Edge í Þýskalandi, hefur sent opið þakkarbréf til Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og fjárfesta og íslensku þjóðarinnar fyrir velvild í sinn garð.

Hópurinn stofnaði heimasíðu í Þýskalandi undir yfirskriftinni „Kaupthing Edge, hjálpið okkur" og var fulltrúi þeirra, Karlheinz Bellmannn, á ferð hér á landi á dögunum til þess að kanna stöðu 30 þúsund innistæðueigenda hjá Kaupthing Edge í Þýskalandi.

Í hinu opna bréfi til þjóðarinnar kemur fram sérstakt þakklæti til starfsmanna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta fyrir að hafa svarað spurningum Þjóðverjanna kunnáttusamlega og af sérstakri velvild, sem ekki verði sagt um þýsk stjórnvöld.

„Herra Karlheinz Bellmann var á Íslandi og þar tók almenningur honum afar vingjarnlega, sem snart okkur mjög. Þessi hlýhugur og undirtektir fjölmiðla studdu framgang máls okkar verulega áleiðis og eiga örugglega sinn þátt í að endanleg niðurstaða fékkst," segir í tilkynningunni. Þar er væntanlega vísað til yfirlýsinga þýska fjármálaráðherrans um að Þjóðverjar láni Íslendingum fé vegna reikninganna í Þýskalandi.

Þýsku innistæðueigendurnir hjá Kaupþingi vonast enn fremur til þess að Ísland komi sterkara út úr kreppunni. „Við vildum fúslega liðsinna ykkur, en það reynist okkur þó ekki unnt. Engu að síður vonumst við til að komast einhvern tíman í frí til Íslands, og geta þannig endurgoldið lítinn hluta af vinsemd ykkar og hjálpsemi," segir í bréfinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×