Erlent

Kínverjar ósáttir við sendingu eldflaugahluta

Skotflaug. Myndin tengist ekki þessari frétt.
Skotflaug. Myndin tengist ekki þessari frétt. MYND/AP

Kínversk stjórnvöld lýstu í dag andúð sinni á sendingu frá Bandaríkjunum sem innihélt hluta í skotflaugar og fór að sögn bandarískra hermálayfirvalda til Taiwan fyrir slysni. Þetta gerðist haustið 2006 en að sögn Michael Wynne, yfirmanns flughers Bandaríkjanna, uppgötvuðust mistökin ekki fyrr en í síðustu viku. Hélt Wynne því fram að í stað rafgeyma í þyrlur, sem vera hefðu átt í sendingunni, hefðu fjórar hvellhettur í skotflaugar farið til Taiwan. „Við minnum Bandaríkjamenn enn einu sinni á að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt Sino-sáttmálanum frá 17. ágúst og hætta vopnasölu til Taiwan auk allra samskipta við hermálayfirvöld þar til þess að stofna ekki ríkjandi friði og samskiptum samkvæmt sáttmálanum í hættu," sagði í yfirlýsingu frá kínverska utanríkisráðuneytinu sem birt var á vefsetri þess.

Búnaðurinn, sem vistaður hafði verið í geymslu í Taiwan, var sendur frá vörugeymslu Bandaríkjahers í Utah á sínum tíma og leggja talsmenn hersins áherslu á að búnaðurinn hafi ekki tengst kjarnavopnum eða verið ætlaður til nota í slík vopn. Herinn gaf það enn fremur út að málið yrði rannsakað ítarlega en hjá svo stórri stofnun væri ekki hægt að fyrirbyggja með öllu að mistök yrðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×