Erlent

Hundrað manns í meðhöndlun vegna miltisbranssmits

Um hundrað manns í smábæ í Svíþjóð eru nú á fyrirbyggjandi pensillínkúr eftir að miltisbrandur fannst á bóndabæ í Hallandsýslu. Þrettán dýr á bænum hafa drepist úr sýkingunni.

Fólki sem hefur ýmist verið á bænum eða meðhöndlað smituð dýr hefur verið fyrirskipað að taka átta vikna pensillínkúr til að koma í veg fyrir að það veikist.

Héraðsfréttablaðið Halladsposten hefur eftir smitsjúkdómalækni á staðnum að meðferðin sé einungis fyrirbyggjandi, og enn hafi enginn veikst. Hann sagði líkurnar á að smitið bærist í menn afar litlar.

Gripirnir sem sýktust voru ætlaðir til manneldis, en ekki er talið að kjöt frá bænum verði innkallað vegna smitsins. Dýr á leið til slátrunar séu vottuð af lækni, og því engin hætta á að þau hafi verið sýkt.

Yfirvöld á staðnum rannsaka nú hvernig smitið kom upp og hvernig sé hægt að komast fyrir það. Bakterían getur lifað í jörð í fimmtíu ár, og því nokkrar líkur á að aldrei verði sýnt fram á hvernig dýrin smituðust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×