Íslenski boltinn

Hallgrímur meiddist er hann fagnaði eigin marki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hallgrímur Jónasson kemur Keflvíkingum yfir í gær.
Hallgrímur Jónasson kemur Keflvíkingum yfir í gær.

Hallgrímur Jónasson þurfti að fara snemma meiddur af velli í leik Keflavíkur og ÍA í gær skömmu eftir að hann kom Keflavík yfir í leiknum.

Ekki vildi betur til en svo að Hallgrímur meiddist er hann fagnaði markinu sínu.

„Ég fékk tvö þung högg á gagnaugað og var hættur að sjá til hliðanna, ég sá bara beint áfram," sagði Hallgrímur í samtali við Vísi. „En þegar allt byrjaði að hringsnúast taldi ég að ég þyrfti að láta skipta mér út af."

„Ég fékk reyndar fyrra höggið þegar við fögnuðum markinu. Gummi (Guðmundur Steinarsson) stökk á (Patrik) Redo og hann skallaði mig beint á gagnaugað. Í seinna skiptið fékk ég svo olnbogaskot frá leikmanni ÍA en það var algjört óviljaverk."

„Það er nú samt alltaf gaman að skora en ég ætti kannski að gera minna af því ef þetta eru afleiðingarnar," sagði hann í léttum dúr.

Viðureignir Keflavíkur og ÍA undanfarin ár hafa verið æði skrautlegar en í fyrra skoraði Bjarni Guðjónsson afar umdeilt mark frá miðju. Sá leikur virtist sitja mikið í Keflvíkingu því þeim gekk illa það sem eftir lifði sumars.

Hallgrímur viðurkennir að það hafi verið sætt að vinna ÍA nú. „Að vissu leyti er það svo. En við erum samt ekki mikið að pæla í því sem gerðist áður, það er bara búið og gert."

Hann bætti við að hann væri mun betri í dag og ætti ekki von á því að missa af næsta leik Keflavíkur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×