Innlent

AGS blandar sér ekki í stjórnmál á Íslandi

MYND/Vilhelm

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn blandi sér ekki í stjórnmál hér á landi og segir út í hött að halda því fram að sjóðurinn sé að leggja stein í götu lýðræðis á Íslandi.

Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri - grænna. Steingrímur vísaði til þess að krafan um kosningar í landinu væri þung og síst á undanhaldi þótt ríkisstjórnin hefði staðist vantrauststillögu í gær. Skilja hefði mátt á forsætisráðherra að engar breytingar mætti gera á ríkisstjórn vegna þess að umsókn hefði verið lögð inn á hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Þannig kæmu eftirlitsmenn frá sjóðnum í febrúar og því væri ekki hægt að kjósa að sögn forsætisráðherra. Vísaði Steingrímur til þess að samstarf sjóðsins og íslenskra stjórnvalda væri til tveggja ára og spurði Steingrímur hvort Geir væri með orðum sínum að segja þjóðinni að ríkisstjórnin sæti í skjóli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Spurði hann enn fremur hvort ráðherra ætlaði að sitja með lemstraða ríkisstjórn upp á náð og miskunn sjóðsins.

Geir H. Haarde sagði Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ekki blanda sér í stjórnmál hér á landi. Sagði hann stjórnvöld hafa gert samkomulag við sjóðinn og fyrsti hluti áætlunar kæmi til framkvæmda á næstunni. Áætlunin yrði svo endurskoðuð í febrúar. Að lokinni endurskoðun sem kæmi í ljós hvort þau lönd sem gefið hefðu vilyrði um lán myndu veita þau. Sagði Geir að ef Alþingi hefði samþykkt vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar í gær. Þá hefðu að líkindum verið kosningar um miðjan febrúar og því hefði ekki verið ríkisstjórn til þess að fylgja eftir fyrsta áfanga samkomulagsins við AGS.

Sagði Geir að við myndum í framhaldi af ákvörðunum í febrúar ganga nokkuð greiðlega í gegnum áætlunina þar til henni lyki árið 2010 og þá reiknaði hann með að horfur í efnahagsmálum væru farnar að batna verulega. Sagði hann úti í hött og rangt að segja að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri að leggja stein í götu lýðræðis í landinu.

Steingrímur sagði þá að ráðherra hefði nú dregið í land og sagt að breytingar gætu orðið eftir febrúar. Þá benti hann á að það væri eins og Geir áttaði sig ekki á að ef vantraust væri samþykkt væri myndaður nýr meirihluti sem myndi gera ráðstafanir. Sagði hann yfirlýsingar Geirs um upphlaup í landinu ímynd í höfði Geirs og ætti ekkert skylt við þingræðislegar reglur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×