Erlent

Segir afnám nafnleyndar á Netinu aldrei ganga

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jimmy Wales.
Jimmy Wales. MYND/Smh.com

Stofnandi alfræðivefjarins Wikipedia segir að fyrirætlanir suður-kóreskra stjórnvalda um að afnema nafnleynd á Netinu muni aldrei ganga eftir.

Jimmy Wales, stofnandi Wikipedia, segir löggjafa Suður-Kóreu á hættulegri braut með þá fyrirætlan að setja lög um birtingu efnis á Netinu sem verði þá eftirleiðis með þeim hætti að engum leyfist að birta þar neitt nafnlaust auk þess sem ætlunin sé að herða eftirlit með fréttasíðum verulega.

Wales lét þessa skoðun sína hiklaust í ljós á vefþróunarráðstefnu í Seoul í fyrradag. Wales sagði að ríkisstjórnum sem gefið væri vald til að hindra vissa hluti myndu hindra þá og því miður oft með þeim afleiðingum að hindranirnar næðu til hluta sem þeim var upphaflega alls ekki ætlað að ná til. Hann sagði ákvarðanir um hvað ætti að birta á Netinu og hvað ekki krefjast yfirvegunar og mikils undirbúnings. Wikipedia-vefurinn skartar nú rúmlega 2,6 milljónum greina á ensku og yfir 10 milljónum greina á alls 150 tungumálum. Hann er einn af 10 vinsælustu vefjum heimsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×