Erlent

Samkynhneigðum ekki lengur heimilar vígslur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Fagnaðarlæti samkynhneigðra eftir dómsúrskurðinn í maí.
Fagnaðarlæti samkynhneigðra eftir dómsúrskurðinn í maí. MYND/AP

Borgaryfirvöld í Los Angeles eru hætt að veita samkynhneigðum hjúskaparleyfi í kjölfar atkvæðagreiðslu íbúa Kaliforníuríkis.

Þeim áfangasigri sem samkynhneigðir íbúar Kaliforníu unnu með úrskurði hæstaréttar ríkisins í maí hefur nú verið hrundið með atkvæðagreiðslu íbúanna. Hæstiréttur úrskurðaði á sínum tíma að lög sem bönnuðu hjónabönd samkynhneigðra stæðust ekki og 17. júní hófust hjónavígslur af svo miklum krafti að sprenging varð í ferðaþjónustubransanum í Kaliforníu á meðan önnur ríki löptu dauðann úr skel vegna hækkandi bensínverðs og samdráttar í öllum ferðalögum.

Nú hefur samdrátturinn hins vegar teygt sig víðar og klukkan hálftólf í gærkvöldi höfðu 52 prósent íbúa Kaliforníu samþykkt breytingu á stjórnarskrá ríkisins sem felur í sér nýtt bann við hjónaböndum samkynhneigðra. Þessari réttarheimild fær hæstaréttarúrskurður ekki hrundið svo verulegt bakslag virðist komið í réttindabaráttu samkynhneigðra í ríkinu.

Kjósendur í Arizona og Flórída hafa tekið sama pólinn í hæðina og næst á dagskrá er kosning um nýjar fóstureyðingarreglur sem skylda lækna til að tilkynna foreldrum fólks undir 21 árs aldri um væntanlega fóstureyðingu hjá barni þeirra minnst 48 stundum fyrir aðgerðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×