Innlent

Sænsku kjötbollurnar hækka ekki

Verð á sænskum kjötbollum, kryddbökuðum laxi, morgunrúnnstykkjum, grænmetisbuffum og fleira gotteríi í veitingastað IKEA hækkar ekki að sinni, þó vöruverð í versluninni hækki um 25% að meðaltali á næstu dögum.

„Það hækkar ekkert á veitingastaðnum, allavega að svo komnu máli," segir Þórarinn H. Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi. „Hann er svolítið heilagur fyrir okkur þessi veitingastaður."

Þórarinn segir það að þurfa að hækka verðin í versluninni vera meiriháttar áfall. „Þetta var mjög erfið ákvörðun. Það má segja að allt hafi verið reynt til að forðast þetta."

Vöruverð fyrir næsta ár er ákveðið á vorin. Þórarinn segir greiningardeildir þá hafa gefið til kynna að krónan myndi jafna sig á árinu, en reyndin hafi eins og flestir vita verið allt önnur. Það sé ekkert launungarmál að greitt hafi verið með rekstrinum undanfarið.

Sú aðgerð að hækka verðin er svo ekki ókeypis. Áttatíu þúsund verðmiðar eru í versluninni, og fjöldi stórra skilta með verðmerkingum sem hanga úr loftinu. Þórarinn segir það muni taka tíu daga að breyta öllum verðmerkingum, og kosta tugi milljóna. „Það er meiriháttar verk að breyta verðunum. Maður gerir það ekkert að gamni sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×