Innlent

Veit ekki af hverju Davíð upplýsti ekki Björgvin

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, veit ekki af hverju seðlabankastjóri lét ekki vita þegar fyrsti hluti láns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins barst til Seðlabankans. Tæp vika leið frá því lánið barst til bankans þar til Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, var upplýstur um afgreiðsluna.

,,Það veit ég ekkert um. Mér finnst þetta ekki skipta nokkru einasta máli. Hann lét mig reyndar vita að ég held sennilega þegar hann hafði gert sér grein fyrir því að peningarnar væru komnir," sagði Geir við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag þegar hann var spurður af hverju Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, lét ekki vita af láninu.

,,Lánið kom fyrr frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en þeir höfðu sjálfir sagt okkur," sagði Geir og bætti við að hann hefði spurt fulltrúa sjóðsins hversu langan tíma tæki að afgreiða lánið. Geir fékk þau svör að lánið kæmi sjö til tíu dögum eftir ákvörðun stjórnarinnar. ,,Þetta skiptir ekki máli. Fyrir vikið fáum við nokkra daga í vaxtatekjur."

Alþingi hefur ekki samþykkt samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Geir sagði að á meðan svo væri yrði ekki hreyft við peningunum og þeim yrði skilað hafni Alþingi samkomulaginu.








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×