Innlent

Ekki hefur verið rætt um launalækkun æðstu embættismanna

Ekki hefur verið rætt um það hjá kjararáði hvort laun æðstu embættismanna landsins lækki í framhaldi af launalækkunum á almennum vinnumarkaði. Þetta segir Guðrún Zoëga, formaður kjararáðs.

Verkefni kjararáðs er að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, ráðherra og dómara og annarra ríkisstarfsmanna þar sem ekki er hægt að ákvarða laun með kjarasamningum vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu. Ráðið hefur oft fylgt þeirri meginstefnu í kjaramálum sem verið hefur í kjarasamningum á almennum og opinberum markaði.

Fram hefur komið að fjölmörg fyrirtæki hafi gripið til þess ráðs að lækka laun starfsmanna sinna um tíu prósent eða meira til þess að bregðast við þeim efnahagsþrengingum sem landið gengur í gegnum. Guðrún Zoëga segir að ráðið hafi ekki rætt hvort sama eigi að gilda um æðstu embættismenn enda séu þessar ákvarðanir fyrirtækja nýtilkomnar.

Kjararáð tók síðast ákvörðun um hækkun launa hjá æðstu embættismönnum í sumar en samkvæmt lögum um ráðið á það að meta eigi sjaldnar en árlega hvort tilefni sé til breytinga. Aðspurð segist Guðrún ekkert geta sagt til um það hvenær kjararáð taki næst ákvörðun um laun æðstu embættismanna en segir að ef breytingar verði í þjóðfélaginu sem mið skuli taka af þá verði það skoðað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×