Enski boltinn

Engin brunaútsala hjá West Ham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robert Green, leikmaður West Ham.
Robert Green, leikmaður West Ham. Nordic Photos / Getty Images

Robert Green, markvörður West Ham, segir að leikmenn hafi verið fullvissaðir um að bestu leikmenn West Ham verði ekki seldir þegar að félagaskiptaglugginn opnar um áramótin.

Enskir fjölmiðlar hafa verið duglegir að halda því fram að framtíð West Ham sé í mikilli óvissu vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Björgólfs Guðmundssonar, eiganda West Ham. Félagið þurfi einfaldlega að selja sína bestu leikmenn til að geta staðið við sínar skuldbindingar.

Nú síðast var fullyrt að Manchester City hafi boðið í þá Craig Bellamy og Scott Parker en West Ham mun hafa hafnað tilboði frá City upp á fimmtán milljónir punda. Einnig hefur Matthew Upson einnig sagður mögulega á leið frá félaginu.

„Þetta er eitthvað sem við höfum ekkert að segja um," sagði Green í samtali við enska fjölmiðla. „Svona hlutir gerast en við leikmenn höfum verið fullvissaðir um að það verði engin brunaútsala á leikmönnum í janúar. Við þurfum bara að bíða og sjá hvað gerist."

„Ég nýt þess að spila með West Ham í mest spennandi deild í heimi," sagði Green og bætti við að mórallinn í leikmannahópnum væri mjög góður þrátt fyrir allt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×