Erlent

Segja ekkert nýtt hafa verið í auglýsingu Obama

Barack Obama borgaði fjórar milljónir bandaríkjadala til að koma á framfæri boðskap sínum í hálftíma sjónvarpsauglýsingu á besta sýningartíma á sjö sjónvarpsstöðvum í gærkvöldi. Stjórnmálaskýrendur segja ekkert nýtt hafa komið fram í máli demókratans.

Kostnaðurinn vegna birtingarinnar er fjórar milljónir bandaríkjadala, jafnvirði hálfs milljarðs króna á gengi Seðlabankans í morgun, og þá er ótalið hvað kostaði að gera hana. Auglýsingin var sýnd á þremur af fjórum stóru sjónvarpsstöðvunum, CBS, NBC og Fox, og fjórum kabalstöðvum.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Davis Guggenheim leikstýrði auglýsingunni en hann er þekktastur fyrir að hafa leikstýrt heimildarmyndinni An Inconvenient Truth fyrir forsetaframbjóðandann fyrrverandi Al Gore.

Óvenjulegt er að forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum fari þessa leið og þykir stjórnmálaskýrendum þetta til marks um hversu vel Obama og hans fólki hafi gengið að safna fé í framboðið.

Stjórnmálaskýrendur segja ekkert nýtt hafa komið fram í auglýsingunni. Hann hafi endurtekið loforð um skattalækkanir fyrir lágtekjufjölskyldur og fyrirtæki sem ráði Bandaríkjamenn til vinnu og að hann ætlaði að afnema skattaívilnanir til fyrirtækja sem flytji störf úr landi.

Yfir ræðu Obama voru birtar myndir af honum í kosningabaráttunni. Auglýsingunni lauk með beinni útsendingu frá kosningafundi í Flórída, einu lykilríkjanna í báráttu Obama við repúblíkanann John McCain. Þar kom Obama fram með Bill Clinton fyrrverandi forseta.

Óvíst hefur verið talið að Clinton styðji Obama með heilum hug eftir að kona hans Hillary laut í lægra haldi fyrir honum í hatrammri baráttu um útnefningu Demókrataflokksins fyrr á þessu ári. Hvað sem þeim vangaveltum líður virtist fara vel á með flokksbræðrunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×