Enski boltinn

Parry ætlar ekki að segja af sér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rick Parry, framkvæmdarstjóri Liverpool.
Rick Parry, framkvæmdarstjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Rick Parry, framkvæmdarstjóri Liverpool, ætlar ekki að segja starfi sínu lausu eins og annar eiganda félagsins, Tom Hicks, hefur farið opinberlega fram á.

Parry segir að það sé undir stjórn félagsins komið að biðja um afsögn hans og það hefur hún ekki gert. Stjórnin er skipuð sex mönnum, þeirra á meðal Parry sjálfum.

Hann hefur hinn eiganda félagsins, George Gillett, á sínu bandi sem og son hans Foster en báðir sitja þeir í stjórn félagsins. David Moores, fyrrum eigandi Liverpool, situr einnig í stjórn og styður hann Parry.

Hicks og sonur hans, Tom yngri, sitja einnig í stjórninni en eru greinilega í minnihluta hvað þetta mál varðar.

„Þetta er mál sem stjórn félagsins þarf að takast á við. Ég svara til stjórnarinnar og þetta er eitthvað sem stjórn félagsins hefur ekki rætt við mig um," sagði Parry.

Liverpool var áður þekkt fyrir að halda öllum innanfélagserjum fyrir sig en eftir að Bandaríkjamennirnir Hicks og Gillett keyptu félagið hefur annað komið á daginn. Þeir talast ekki við í dag.

„Ég vil bara gera mitt besta fyrir félagið. Félagið mun lifa þetta af og eru undanúrslit í Meistaradeildinni framundan. Það er að mörgu að huga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×