Enski boltinn

Það vantar einn titil í safnið

Elvar Geir Magnússon skrifar
Steven Gerrard og Fernando Torres eru báðir í hópu bestu knattspyrnumanna heims.
Steven Gerrard og Fernando Torres eru báðir í hópu bestu knattspyrnumanna heims.

Steven Gerrard vill fara að sjá Liverpool berjast um Englandsmeistaratitilinn. Þessi frábæri miðjumaður hefur verið orðaður við ýmis félög en reiknar fastlega með því að spila fyrir Liverpool út ferilinn.

„Ég sé mig ekki yfirgefa Liverpool. Ég vil ekki þurfa að líta til baka eftir ferilinn og segjast aldrei hafa tekið þátt í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn," sagði Gerrard.

Gerrard hefur unnið Meistaradeildina með Liverpool en liðið hefur ekki náð að veita Manchester United, Chelsea og Arsenal samkeppni í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég hef unnið titla hérna en það er einn sem vantar og hann vil ég vinna áður en skórnir fara í hilluna. Liðið er að verða sterkara og er á leið í rétta átt. Við erum að nálgast og ég hef fulla trú á því að við getum barist um að vinna deildina."

Liverpool hefur tryggt sér fjórða sætið í deildinni og þar með sæti í Meistaradeildinni. Gerrard vill sjá liðið styrkja sig á leikmannamarkaðnum í sumar. „Við þurfum að halda áfram í þessa átt og því er mikilvægara en oft áður að styrkja liðið í sumar," sagði Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×