Fótbolti

Ólafur: Ég fer alltaf eftir minni sannfæringu

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari Mynd/E. Stefán

Það vakti óneitanlega athygli að Ólafur Jóhannesson skipti alfarið um markverði í íslenska landsliðshópnum í dag. Vísir spurði landsliðsþjálfarann út í þessar breytingar.

Kjartan Sturluson og Stefán Logi Magnússon misstu sæti sitt í hendur Árna Gauts Arasonar og Gunnleifs Gunnleifssonar.

Árni Gautur er nú farinn að spila á fullu í Noregi á ný eftir að hafa verið samningslaus og verið til skamms tíma á mála hjá liði í Suður-Afríku.

"Árni Gautur hefur verið farsæll markvörður hjá okkur en hann hefur ekki verið inni í myndinni undanfarið af því hann var samningslaus. Nú er hann hinsvegar farinn að spila í Noregi og við erum búnir að skoða hann. Hann er í fínu standi og því vorum við ákveðnir að taka hann með okkur," sagði Ólafur

Gunnleifur stóð vaktina með sóma í liði HK í sumar og reyndar hefur það verið vinsælt deiluefni síðustu misseri af hverju hann hafi ekki verið valinn í landsliðið. Við spurðum Ólaf hvort hann hefði fundið fyrir þrýstingi um að velja HK-markvörðinn í hópinn.

"Þetta hafði ekki áhrif á mig, ég fer alltaf eftir minni sannfæringu. Ef ég fer að fara eftir einhverjum röddum úti í bæ, held ég að ég komi mér fljótlega í ógöngur. Ég hef aldrei dregið í efa að Gunnleifur sé góður markvörður eins og Kjartan og Stefán, en mér hefur þótt Gunnleifur spila best af þeim upp á síðkastið og því ákvað ég að skoða hann núna."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×