Innlent

Geir sammála Þorgerði um Davíð

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að það liggi fyrir að embættismenn séu ekki aðilar að stjórnarmyndun.

Forsætisráðherra var spurður í seinnifréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld hvort hann væri sammála Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, væri kominn langt út fyrir verksvið sitt þegar hann tali fyrir myndun þjóðstjórnar.

,,Hann var nú ekki að viðra hugmyndir um þjóðstjórn. Það er einhver misskilningur sem hefur komist á kreik. En auðvitað er það ekki hans mál. Það er mál stjórnmálaflokkanna. Ég tel ekki að hann hafi verið að reyna að seilast þangað inn með því sem hann kann að hafa látið út úr sér," segir Geir.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafi sagt að ástandið í efnahagsmálum sé svo alvarlegt að ástæða sé til að koma á þjóðstjórn.

Þorgerður sagði í samtali við Vísi í dag að með ummælum sínum sé seðlabankastjóri kominn langt út fyrir sitt verksvið. „Ég tel rétt að seðlabankastjóri einbeiti sér að þeim ærnu verkefnum sem Seðlabankinn þarf að takast á við en láti stjórnmálamönnum eftir stjórn landsins."




Tengdar fréttir

Hugmyndir Davíðs um þjóðstjórn hafa enga þýðingu

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir ríkisstjórnina ekki sitja með hendur í skauti í því erfiða efnahagsástandi sem nú dynur á þjóðinni. Hann segir hugmyndir Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um þjóðstjórn hugmyndir manns út í bæ sem ekki hafi þýðingu á hinum pólitíska vettvangi.

Þorgerður skammar Davíð

„Ég tel rétt að seðlabankastjóri einbeiti sér að þeim ærnu verkefnum sem Seðlabankinn þarf að takast á við en láti stjórnmálamönnum eftir stjórn landsins,” segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

„Er Davíð Oddsson ekki hættur í stjórnmálum?“

Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins segir Davíð Oddsson ekki hafa rætt hugmyndir um þjóðstjórn við sig. Hann segist sjálfur hafa sett fram hugmyndir um þjóðarsátt fyrir ári síðan og muni ekki skorast undan ábyrgð verði leitað til hans með hugmyndina eins og hann setti hana fram.

Hefur ekki rætt hugmyndir um þjóðstjórn

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna vill lítið tjá sig um hugmyndir Davíðs Oddssonar um að hér þurfi að koma á fót þjóðstjórn. Hann segir hugmyndirnar þó undirstrika að ástandið sé alvarlegt og ekki sé skrýtið að svoleiðis komi upp. Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir því á forsíðu í morgun að Davíð hafi tvisvar viðrað þessa hugmynd sína undanfarið.

Enginn tilgangur með þjóðstjórn

„Við erum með ríkisstjórn sem er með mjög styrkan þingmeirihluta og ég sé ekki fyrir mér að þjóðstjórn geti skilað einhverju umfram þá stjórn sem situr í dag," segir Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×