Innlent

„Er Davíð Oddsson ekki hættur í stjórnmálum?“

Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson

Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins segir Davíð Oddsson ekki hafa rætt hugmyndir um þjóðstjórn við sig. Hann segist sjálfur hafa sett fram hugmyndir um þjóðarsátt fyrir ári síðan og muni ekki skorast undan ábyrgð verði leitað til hans með hugmyndina eins og hann setti hana fram.

„Er Davíð Oddsson ekki hættur í stjórnmálum?," spyr Guðni aðspurður hvort Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafi rætt hugmyndir um þjóðstjórn í hans eyru.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir að heimildir blaðsins hermi að Davíð hafi nefnt þessa hugmynd a.m.k í tvígang undanfarið.

„Ég setti fram hugmyndir um þjóðarsátt fyrir ári síðan þegar peningakreppan skall á og nefndi þar þjóðstjórn þar sem allir myndu róa í takt. Það hefur hinsvegar enginn úr Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni né Davíð Oddsson tekið undir þetta í mín eyru ennþá," segir Guðni.

„Komi hugmyndin upp eins og við settum hana fram þá munum við Framsóknarmenn ekki skorast undan ábyrgð né trausti og fara yfir það mál."








Tengdar fréttir

Hugmyndir Davíðs um þjóðstjórn hafa enga þýðingu

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir ríkisstjórnina ekki sitja með hendur í skauti í því erfiða efnahagsástandi sem nú dynur á þjóðinni. Hann segir hugmyndir Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um þjóðstjórn hugmyndir manns út í bæ sem ekki hafi þýðingu á hinum pólitíska vettvangi.

Hefur ekki rætt hugmyndir um þjóðstjórn

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna vill lítið tjá sig um hugmyndir Davíðs Oddssonar um að hér þurfi að koma á fót þjóðstjórn. Hann segir hugmyndirnar þó undirstrika að ástandið sé alvarlegt og ekki sé skrýtið að svoleiðis komi upp. Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir því á forsíðu í morgun að Davíð hafi tvisvar viðrað þessa hugmynd sína undanfarið.

Enginn tilgangur með þjóðstjórn

„Við erum með ríkisstjórn sem er með mjög styrkan þingmeirihluta og ég sé ekki fyrir mér að þjóðstjórn geti skilað einhverju umfram þá stjórn sem situr í dag," segir Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×