Enski boltinn

Adams: Engin tilboð í Johnson og Defoe

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jermain Defoe, leikmaður Portsmouth.
Jermain Defoe, leikmaður Portsmouth. Nordic Photos / Getty Images

Tony Adams, knattspyrnustjóri Portsmouth, segir að félaginu hafi engin tilboð borist í þá Jermain Defoe og Glen Johnson.

Enskir fjölmiðlar hafa verið duglegir að greina frá meintum félagaskiptum þeirra tveggja og er Johnson sagður vera á leið til Liverpool fyrir níu milljónir punda.

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, sagði í gær að hann væri hættur við að gera tilboð í Defoe þar sem annað ónefnt félag hafi lagt fram risatilboð í leikmanninn.

Greint hefur verið frá því að bæði Manchester City og Aston Villa hafi lagt fram tilboð upp á sextán milljónir punda í Defoe. Því hafnar Adams.

„Það hafa engin tilboð komið í Jarmein Defoe - ekki eitt. Ég er harðákveðinn í að halda honum rétt eins og öllum mínum leikmönnum. Ég veit ekkert um einhver risatilboð. Harry verður að svara fyrir það."

Adams útilokaði þó ekki að slíkt tilboð kæmi í framtíðinni. Hann ákvað að taka Defoe úr byrjunarliðinu gegn Arsenal í gær og sagði að það væri vegna þess að hann ákvað að stilla byrjunarliðinu upp samkvæmt 4-5-1 leikkerfinu.

„Það er ekki auðvelt starf að vera knattspyrnustjóri. Maður þarf stundum að taka erfiðar ákvarðanir en hann er frábær knattspyrnumaður."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×