Enski boltinn

Björgólfur vill lækka launakostnað hjá West Ham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgólfur með Eggerti Magnússyni, fyrrum stjórnarformanni West Ham.
Björgólfur með Eggerti Magnússyni, fyrrum stjórnarformanni West Ham. Nordic Photos / Getty Images

The Guardian heldur því fram í dag að Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður og eigandi West Ham, ætli sér að skera niður kostnað hjá félaginu með því að lækka laun.

Samkvæmt heimildum blaðsins hafa forráðamenn félagsins tjáð Alan Curbishley, stjóra West Ham, að þeir séu óánægðir með að borga leikmönnum sem hafa ekki staðið undir væntingum himinhá laun.

Það gæti þýtt að margir þekktustu leikmanna West Ham séu á leið frá félaginu, svo sem Kieron Dyer, Lucas Neill og Freddie Ljungberg. Þeir eru allir sagðir vera með tæpar tólf milljónir króna í vikulaun.

Aðrir þekktir leikmenn sem hafa átt við meiðsli að stríða í vetur eru Scott Parker, Craig Bellamy, Matthew Upson og Julien Faubert. Hvort þeir eiga sér framtíð hjá West Ham er óráðið.

Björgólfur mun einnig hafa sagt Curbishley að hann þurfi að fækka í leikmannahópi sínum.

The Guardian greinir einnig frá því að miðaverð á leiki á heimavelli West Ham muni hækka um fimm prósent á næsta keppnistímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×