Innlent

Dómari víkur ekki í máli gegn Jóni Ólafssyni

Frá þingfestingu málsins í sumar.
Frá þingfestingu málsins í sumar.

Hæstiréttur hefur staðfest þann úrskurð Símons Sigvaldasonar, dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, að hann víki ekki sæti í máli ákæruvaldsins á hendur Jóni Ólafssyni athafnamanni og þremur öðrum vegna meintra skattalagabrota.

Eins og fram hefur komið í fréttum gaf efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra út ákæru á hendur Jóni fyrr á árinu en honum er gefið að sök að hafa svikið um 360 milljónir króna undan skatti í tengslum við rekstur Norðurljósa og tengdra félaga.

Ákærurnar á hendur Jóni og þremenningunum voru þingfestar um miðjan júlí en frávísunarkrafa málsins var fyrst tekin fyrir í byrjun nóvember. Átti munnlegur málfutningur vegna kröfunnar þá að fara fram. Málið tók hins vegar óvænta stefnu í dómssal þegar verjendur í málinu fóru fram á það að málinu yrði vísað frá og dómarinn viki sæti.

Var vísað til þess að Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, hefði sent dómaranum í málinu greinargerð og það stangaðist á við lög því málflutningur ætti að vera munnlegur. Dómarinn hafnaði hins vegar kröfunum um frávísun og að hann viki. Síðarnefndu kröfunni var áfrýjað til Hæstaréttar.

Hann felldi úrskurð sinn í gær. Þar var fallist á með sakborningum að greinargerð saksóknara hefði falið í sér skriflegan málflutning og að ekki væri heimild til slíks samkvæmt núgildandi lögum. Á sama hátt hefðu bréf og bókanir verjenda falið í sér heimildarlausan skriflegan málflutning. Engin lagarök stæðu hins vegar til þess að fyrrgreindir hnökrar á meðferð málsins fyrir dómi leiddu til vanhæfis dómarans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×