Innlent

Glæsibifreiðar hluti af launakjörum nýju bankastjóranna

Bifreiðahlunnindi eru hluti af launakjörum stjórnenda Nýja Glitnis og Landsbankans, auk einhverra annarra lykilstjórnenda. Leynd hvílir enn yfir launakjörum bankastjóra Nýja Landsbankans.

Það hefur reynst þrautin þyngri að fá upplýsingar um hlunnindi lykilstjórnenda nýju bankanna. Enn skirrist Elín Sigfúsdóttir, bankastjóri Nýja Landsbankans, við að gefa upp laun sín og vísar til þess að starfsemi bankans falli ekki undir stjórnsýslulög og sé því ekki upplýsingaskyld.

Fréttastofan hefur þó aflað sér heimilda um að Elín aki um á glæsilegri Bensbifreið sem skráð er á bankann og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði í gær að launakjör Elínar væru á svipuðum nótum og bankastjóra hinna bankanna, en þeir eru með eina milljón og sjö hundruð og fimmtíu þúsund krónur í mánaðarlaun.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Nýja Glitnis ekur einnig um á gæsibifreið sem er skráð á bankann og fréttastofu er kunnugt um að fleiri lykilstjórnendur bankans njóti bílafríðinda, sumir þó aðeins tímabundið.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, var eini stjórnandinn sem talaði við fréttastofu. Hann segist ekki njóta bifreiðahlunninda, hann ætti þó kost á því, en þá myndi það dragast frá launum hans.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun það vera venjan að bifreiðahlunnindi séu hluti af launum, en leggist ekki ofan á þau.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×