Innlent

Fundað með Bretum og Norðmönnum

Frá fundi íslensku og bresku samninganefndanna í gær.
Frá fundi íslensku og bresku samninganefndanna í gær. MYND/Stöð 2

Viðræður samninganefnda Íslands og Bretlands vegna Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi héldu áfram í morgun klukkan níu. Ekki liggur fyrir hvernig samningaviðræður ganga eða hvort gengið verði til samninga í dag. Nefndirnar funduðu nánast í allan gærdag en fyrir íslensku samninganefndinni fer Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari.

Þá er hingað komin norsk sendinefnd til þess að ræða við íslensk stjórnvöld um efnahagsástandið á Íslandi og til að kanna hvort Norðmenn geti lagt Íslendingum lið. Eftir því sem Vísir kemst næst ræðir hún nú við fulltrúa úr forsætisráðuneytinu. Geir H. Haarde forsætisráðherra segir á vef forsætisráðuneytisins að koma nefndarinnar sé afar jákvæð „og við bindum vonir við að eiga árangursríkar viðræður við þessa nágranna okkar og frændþjóð."

Nefndin mun eiga fundi með fulltrúum íslenskra stjórnvalda í dag og á morgun og ræða meðal annars stöðu efnahagsmála og hugsanlega aðstoð sem íslensk stjórnvöld gætu óskað eftir við norsk stjórnvöld og myndu nýtast til að draga úr áhrifum fjármálakreppunnar. Þá stendur til að undirbúa fund norrænu forsætisráðherranna í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Helsinki í næstu viku. Þar verður staðan á Íslandi sérstaklega til umræðu.

„Noregur er næsti nágranni Íslands. Samband landanna byggist á traustum grunni, sem er saga þjóðanna og sameiginlegar menningarrætur. Mér þykir afar vænt um þann mikla stuðning sem Norðmenn sýna okkur með því að senda hingað fulltrúa sína og hve þeim er umhugað um að aðstoða okkur í þeim mikla vanda sem við okkur blasir. Það er þakkarvert að takast skyldi að skipuleggja þessa ferð með skömmum fyrirvara," segir Geir . Haarde.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×