Íslenski boltinn

Keflavík lagði KR í frábærum leik

Atli Viðar Björnsson skoraði bæði mörk FH í dag
Atli Viðar Björnsson skoraði bæði mörk FH í dag

Toppliðin FH og Keflavík unnu leiki sína í dag þegar sjötta umferð Landsbankadeildarinnar kláraðist með fimm leikjum. Leikur Keflavíkur og KR var sannkölluð flugeldasýning og lauk með 4-2 sigri heimamanna.

Guðmundur Steinarsson kom Keflavík á bragðið með marki úr víti á 15. mínútu og Hörður Sveinsson kom heimamönnum í 2-0 á 22. mínútu eftir skelfileg varnarmistök gestanna.

Björgólfur Takefusa minnkaði muninn fyrir KR úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks og framherjinn knái náði svo að jafna leikinn strax á þriðju mínútu síðari hálfleiks.

Keflvíkingar létu hinsvegar ekki slá sig út af laginu og Guðmundur Steinarsson bætti við öðru marki sínu á 54. mínútu. Það var svo Símun Samuelsen sem innsiglaði sigur Keflvíkinga á 86. mínútu.

Bæði lið fengu aragrúa færa til að skora fleiri mörk og óhætt er að segja að hér hafi verið á ferðinni einn af skemmtilegri leikjum sumarsins.

FH áfram á toppnum

FH-ingar byrjuðu vel gegn Fjölni og Atli Viðar Björnsson gerði að heita má út um leikinn með tveimur mörkum á 17. og 27 mínútu eftir laglegan undirbúning nafna síns Guðnasonar.

Segja má að mörkin hafi komið á góðum tíma því Davíð Þór Viðarsson fékk að líta rauða spjaldið á 30. mínútu leiksins. Fjölnismenn gerðu harða hríð að marki FH í síðari hálfleiknum og þurftu FH-ingar m.a. að bjarga á línu, en þeir náðu að halda fengnum hlut og tryggðu sér þrjú stig og halda efsta sæti deildarinnar.

Valsmenn lögðu Blika

Valsmenn lögðu Breiðablik 1-0 á heimavelli sínum á Hlíðarenda. Fyrri hálfleikur var ekki sérlega fjörugur, en líf færðist í leikinn á 52. mínútu þegar Albert Ingason skoraði það sem reyndist sigurmark Vals.

Albert skoraði eftir góða sendingu Helga Sigurðssonar en Prince Rajcomar klúðraði vítaspyrnu fyrir Blika á 79. mínútu. Atli Sveinn Þórarinsson fékk að líta rauða spjaldið hjá Val á 81. mínútu þegar hann fékk sitt annað gula spjald.

Mikill hasar á Laugardalsvelli

Grindavík lagði Fram 1-0 í ótrúlegum leik á Laugardalsvelli þar sem heimamenn léku þremur mönnum færri þegar flautað var til leiksloka.

Það var Scott Ramsay sem skoraði sigurmark Grindavíkur beint úr hornspyrnu á 57. mínútu.

Bæði lið fengu ágæt færi í fyrri hálfleik, en hafi sá fyrri verið tíðindalítill, lifnaði heldur betur yfir hlutunum í þeim síðari.

Þrír Grindvíkingar fengu að líta rauða spjaldið í hálfleiknum. Fyrstur fauk Marinko Skaricic á 61. mínútu, þá Zoran Stamenic á 86. mínútu og þá Scott Ramsay á 89. mínútu.

Bæði lið misnotuðu vítaspyrnu í leiknum. Andri Birgisson fyrir fram á 56. mínútu og Paul McShane fyrir Fram á 61. mínútu. Framarar fengu aragrúa færa til að nýta sér liðsmuninn undir lokin en boltinn hreinlega vildi ekki í markið. Ótrúlegur sigur hjá Grindavík.

Aftur sá Stefán rautt

HK og ÍA skildu loks jöfn 1-1 í Kópavogi. Mitja Bruic kom HK yfir með marki á 26. mínútu og ekki skánaði útlitið fyrir Skagamenn á 51. mínútu þegar Stefán Þórðarson fékk að líta rauða spjaldið. Hann var ný kominn úr banni eftir að hafa fengið rautt spjald fyrir nokkru.

Skagamenn efldust við mótlætið og voru á kafla betri aðilinn í síðari hálfleik og það var Vjakoslav Svadumovic sem jafnaði fyrir ÍA með marki úr vítaspyrnu á 76. mínútu.

FH á toppnum

FH-ingar hafa 16 stig á toppi deildarinnar að loknum sex umferðum og Keflvíkingar eru í öðru sæti með 15 stig, en nokkuð bil er í næstu lið.

Fram, Fjölnir, Valur og Fylkir hafa öll hlotið níu stig í 3. til 6. sæti og þar á eftir koma Þróttur og Breiðablik með 8 stig. ÍA og HK sitja á botninum með 5 og 4 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×