Enski boltinn

Man City sekkur dýpra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roman Bednar var hetja West Brom í dag.
Roman Bednar var hetja West Brom í dag. Nordic Photos / Getty Images
Manchester City tapaði enn einum leiknum í ensku úrvalsdeildinni í dag, í þetta sinn á útivelli fyrir botnliði West Bromwich Albion, 2-1.



Smelltu hér til að sjá samantekt úr leiknum.


Luke Moore kom West Brom yfir en Felipe Caceido jafnaði metin fyrir City þegar að skammt var til leiksloka. En það var hins vegar Roman Bednar sem náði að skora sigurmark leiksins í uppbótartíma leiksins.

Framherjinn Bednar var í byrjunarliði West Brom á nýjan leik í staðinn fyrir Chris Brunt. Þá kom Do-Heon Kim inn fyrir Borja Valero á miðjunni.

Robinho var ekki í liði Manchester City vegna meiðsla eins og búist var við en Benjani var í byrjunarliðinu eftir að hann náði að hrista af sér sín meiðsli. Richard Dunne var einnig í byrjunarliðinu en hann missti af Evrópuleiknum í vikunni.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og það var ekki mikið um færi í fyrri hálfleik. Það besta fékk Bednar sem skaut í stöng en af henni fór boltinn af Joe Hart markverði og framhjá.

Síðari hálfleikur var ekki mikið skárri og snemma í honum meiddist Benjani með þeim afleiðingum að honum var skipt út af. Inn á í staðinn kom Felipe Caicedo sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið gegn Racing Santander í UEFA-bikarkeppninni í vikunni.

En nokkru síðar kom loksins fyrsta markið. West Brom komst í skyndisókn og James Morrison gaf stungusendingu á Luke Moore sem náði að koma boltanum framhjá Hart markverði City. Þetta mark kom á 69. mínútu.

Þegar sex mínútur voru til leiksloka lét varamaðurinn Caceido til sín taka. Boltinn barst til hans í miðjum teignum og hann gerði sér lítið fyrir og skaut að marki með hælnum en boltinn fór af varnarmanni West Brom og í stöngina og inn.

Það var því allt útlit fyrir jafntefli en heimamenn neituðu að játa sig sigraða. Í uppbótartíma gerðu varnarmenn City sig seka um slæm mistök er há fyrirgjöf kom inn á teiginn. Þeir gleymdu að dekka Bednar sem þakkaði fyrir sig með því að skora með fínum skalla.

Þar við sat og West Brom vann afar sætan sigur en liðið hafði ekki unnið í síðustu tíu leikjum sínum.

West Brom er enn á botninum en er nú með fimmtán stig en Manchester City er nú komið í fallsæti með átján stig. Útlitið er því heldur dökkt fyrir Mark Hughes, knattspyrnustjóra liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×