Innlent

Segir ekki útilokað að kosið verði á næstu mánuðum

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segist ekki sjá nauðsyn til þess að endurskoða stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar þrátt fyrir þau áföll sem dunið hafa á íslensku efnahagskerfi. Í þætti Sigmundar Ernis Rúnarssonar, Mannamáli, sagði hann að ríkisstjórnarsamstarfið hefði styrkst að undanförnu. Hins vegar sagði hann ekki hægt að útiloka að gengið yrði fyrr til kosninga, í vetur eða næsta vor.

„Við erum ekkert að víkjast undan því," sagði Björn. „Það fer eftir því hvað menn telja skynsamlegast að gera." Hann sagði að undanfarnar vikur myndu hafa áhrif víða í samfélaginu og einnig í umhverfi stjórnmálanna. Þegar Sigmundur spurði hann hvort hann væri að boða til kosninga sagðist Björn alls óvíst hvort hann ætlaði sér að bjóða sig fram á ný.

Í þættinum ræddi Björn einnig mögulega lántöku Íslendinga í Rússlandi. Hann sagðist telja að Rússar væru með lánveitingunni að spila "geopólitískan" leik. „Við værum meðvitundarlausir ef við áttuðum okkur ekki á því," sagði ráðherrann og bætti því við að það væri ástæðan fyrir því hve mikla athygli lánið hefði vakið hjá öðrum þjóðum. Hann sagðist þó alls ekki vera mótfallinn lántöku hjá Rússum væri rétt að henni staðið. „Ég hef sagt að viðskipti við Rússa eigi rétt á sér eins og við allar aðrar þjóðir og ég er tilbúinn að ræða allar hliðar málsins."

Að lokum spurði Sigmundur Björn hvernig honum sem gömlum "moggamanni" litist á að Morgunblaðið væri orðið "Baugsmiðill". „Það myndi ég nú ekki segja," sagði Björn. „Er Baugur til? Er það ekki ríkið meira og minna sem á þetta?"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×