Innlent

550 milljóna niðurskurður hjá RÚV

Páll Magnússon, útvarpsstjóri.
Páll Magnússon, útvarpsstjóri.

Skorið verður niður um 550 til 600 milljónir króna í rekstri Ríkisútvarpsins ohf. vegna aðstæðna í efnahagslífinu. Á milli tuttugu og þrjátíu starfsmönnum verður sagt upp störfum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Endurskoðuð rekstraráætlun Ríkisútvarpsins verður kynnt í dag. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er niðurskurðurinn nálægt fimmtán prósentum af rekstri fyrir yfirstandandi starfsár. RÚV var ætlað um þrír milljarðar í starfsfé í fjárlagafrumvarpi ársins 2009 sem er nú til endurskoðunar. Að auki fær stofnunin rúmlega milljarð króna í tekjur af auglýsingum. Niðurskurðurinn nemur því um 550 til 600 milljónum.

Niðurskurðinum fylgja uppsagnir tuttugu til þrjátíu starfsmanna stofnunarinnar, samkvæmt heimildum.

Ómar Benediktsson, stjórnarformaður RÚV, og Páll Magnússon útvarpsstjóri staðfestu við Fréttablaðið í gær að endurskoðuð rekstraráætlun yrði kynnt í dag en vildu að öðru leyti ekkert tjá sig um málið.

Fjármagnskostnaður stofnunarinnar er að sliga reksturinn, samkvæmt heimildum blaðsins, eins og fleiri fyrirtækja og stofnana hérlendis. Eins að mikil óvissa sé um reksturinn vegna upptöku nefskatts 1. janúar næstkomandi, sem ekki hefur verið gengið frá, og fyrirséð að heimildir stofnunarinnar til að beita sér á auglýsingamarkaði verða takmarkaðar.

Aðgerðirnar sem kynntar verða í dag séu því til að bregðast við stöðunni eins og hún er í augnablikinu en aðeins sé um fyrstu skref að ræða. Búast megi við mun harkalegri niðurskurðar­aðgerðum þegar allt hefur verið talið og kynning rekstraráætlunar á morgun sé fyrsta skrefið af mun sársaukafyllri aðgerðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×