Fótbolti

Nítján landsliðsmenn Bosníu neita að spila vináttulandsleik

Meho Kodro, fyrrum landsliðsþjálfari Bosníu.
Meho Kodro, fyrrum landsliðsþjálfari Bosníu. Nordic Photos / AFP

Nítján landsliðsmenn Bosníu hafa neitað að taka þátt í vináttulandsleik gegn Aserbaídsjan á sunnudaginn. Þeir eru ósáttir við að Meho Kodro var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara fyrr í mánuðinum.

Þeir vilja frekar taka þátt í góðgerðarleik sem Kodro og framherjinn Elvir Bolic hafa boðið þeim til að taka þátt í. Kodro var aðeins fjóra mánuði í starfi en hann neitaði að stýra liðinu í vináttulandsleik gegn Íran þar sem hann sagðist ekki hafa fengið að vita af leiknum með nægilega góðum fyrirvara.

Denjal Piric er nú landsliðsþjálfari Bosníu en hann ætlar að hætta eftir leikinn á sunnudaginn. Hann segist verða að nota marga leikmenn úr U-21 liðinu en leikurinn verði engu að síður að fara fram. Annars á knattspyrnusamband Bosníu von á harðri refsingu frá FIFA.

Ísland mætir Aserbaídsjan í vináttulandsleik í ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×