Lífið

Náttúru-tónleikasviðið tekið að rísa

Frá uppsetningu sviðsins í Laugardal í dag.
Frá uppsetningu sviðsins í Laugardal í dag.

Undirbúningurinn fyrir Náttúru-stórtónleikana í Laugardal, næstkomandi laugardag, er nú í hámarki en í morgun var hafist handa við að koma upp sviðinu sjálfu. Finnur Jóhannsson, framkvæmdaraðili tónleikanna, hafði í nógu að snúast þegar Vísir setti sig í samband við hann og sagði Finnur að þeir væru „nokkrir flutningabílarnir“ sem nú streymdu í Laugardalinn með tæki og tól.

Sviðið er nánast það sama og notast var við á tónleikum Sigur Rósar á Klambratúni sumarið 2006 en Finnur efast ekki um að tónleikarnir á laugardag verði stærri. „Þá vorum við bara með eitt stórt nafn en nú eru þau tvö. Þýðir það ekki helmingi stærri tónleikar?“ spyr Finnur glettnislega.

Veðrið spilar stórt hlutverk

Tónleikarnir fara fram rétt við gömlu þvottalaugarnar í Laugardal og að sögn Finns verður allt svæðið opið, fyrir utan mestu hættusvæðin. Finnur hvetur að sjálfsögðu alla til að skilja einkabílinn eftir og þess í stað nota strætó eða einfaldlega labba eða hjóla á svæðið.

Finnur gerir ráð fyrir að aðsókn á tónleikana fari mikið eftir veðri en segist ráða vel við tuttugu til 25 þúsund gesti en ef þeir verða fleiri „þá verður bara gaman,“ segir Finnur.

Samkvæmt veðurspá frá Veðurstofu Íslands er gert ráð fyrir bjartviðri að mestu en þó með stöku skúrum.

Fleiri hundruð erlendir gestir

Diljá Ámundadóttir, sem einnig hefur unnið að skipulagningu tónleikanna, segir á fjórða tuga blaðamanna frá bæði Bandaríkjunum og Evrópu mæti á tónleikana og allt upp í nokkuð hundruð almennir gestir komi að utan gagngert til þess að vera viðstaddir þennan stórviðburð. „Mér finnst fólk hafa tekið ótrúlega fljótt við sér enda var þetta ekki tilkynnt fyrr en í lok maí,“ segir Diljá. Fyrir utan alla gestina er einnig gert ráð fyrir um 25 starfsmönnum á vegum Bjarkar og Sigur Rósar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.