Enski boltinn

Robinho þreyttur á slúðrinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robinho í leik með Manchester City.
Robinho í leik með Manchester City. Nordic Photos / Getty Images

Robinho segist þreyttur á endalausum sögusögnum um leikmenn sem eru sagðir á leið til Manchester City nú þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar.

Manchester City hefur ekki átt góðu gengi að fagna að undanförnu og er sem stendur í þrettánda sæti deildarinnar, tveimur stigum frá fallsæti.

City hefur verið sagt ríkasta félagslið heims eftir að Abu Dhabi United Group keypti það í haust. Í kjölfarið kom Robinho sem er dýrasti leikmaður Bretlandseyja frá upphafi og sagður launahæsti knattspyrnumaður heims.

Robinho hefur þó þótt standa undir væntingum en hann hefur þó engar skýringar á reiðum höndum vegna gengisins í haust.

„Það er ótrúlegt að hugsa til þess að liðið skuli vera í fallbaráttu með þennan leikmannahóp," sagði Robinho í samtali við enska fjölmiðla. „Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki ástæðuna fyrir því en þetta er helsta umræðuefnið í búningsklefanum."

„Ég tel eina skýringuna gæti verið sú að það er endalaust verið að fjalla um leikmenn sem eru mögulega að koma til félagsins í janúar. Sumir liðsfélaganna minna óttast kannski um eigin framtíð hjá félaginu og það er ekki jákvætt. En það er ekkert við því að gera nema að reyna að láta það ekki hafa áhrif á okkur."

Robinho hefur skorað tólf mörk á tímabilinu, þar af ellefu í úrvalsdeildinni. Hann segist þó ekki enn hafa sýnt sitt besta.

„Ég verð að segja að ég er ekki fullkomnlega ánægður með eigin frammistöðu. Stuðningsmennirnir hafa ekki enn fengið að sjá hinn sanna Robinho."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×