Enski boltinn

Fuller ekki rekinn frá Stoke

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ricardo Fuller gengur af velli um helgina.
Ricardo Fuller gengur af velli um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Peter Coates, stjórnarformaður Stoke City, á ekki von á því að Ricardo Fuller verði látinn fara frá félaginu eftir uppákomu helgarinnar.

Fuller fékk þá rauða spjaldið í leik Stoke og West Ham fyrir að slá til liðsfélaga síns og fyrirliða Stoke, Andy Griffin.

Sumir stuðningsmanna Stoke hafa krafist þess að Fuller verði rekinn frá félaginu en Coates á ekki von á því að til þess þurfi að koma.

„Ég mun ræða við stjórann (Tony Pulis) um þetta mál en það er ljóst að þetta er innanbúðarmál," sagði Coates í samtali við enska fjölmiðla. „Fuller er félaginu mjög mikilvægur leikmaður og mun skipa stóran sess í áætlunum liðsins fyrir síðari hluta tímabilsins."

Fuller fær sjálfkrafa þriggja leikja bann fyrir rauða spjaldið og búist er við því að hann fái sekt frá félaginu sem samsvarar launum hans í tvær vikur. Þá er ekki útilokað að félagið setji hann í enn lengra leikbann.

„Við getum vel jafnað okkur á þessu. Mórallinn í liðinu er góður og það mun ekki breytast. Auðvitað varð ég fyrir vonbrigðum vegna þess sem gerðist enda hafði það mikil áhrif á leikinn sem við töpuðum. Fólk verður að læra að hemja skap sitt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×