Enski boltinn

Samningaviðræður Berbatov og Tottenham ganga hægt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dimitar Berbatov í leik með Tottenham.
Dimitar Berbatov í leik með Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Enskir fjölmiðlar halda því fram að allar líkur séu á því að Dimitar Berbatov fari frá Tottenham í sumar þar sem viðræðum hans og félagsins um nýjan samning gangi illa.

Berbatov á enn tvö ár eftir af núverandi samningi sínum við Tottenham en umboðsmaður hans, Emil Dantchev, segir að samningaviðræður hafi dregist á langinn.

Hann mun hitta forráðamenn félagsins aftur í vikunni en Dantchev vill finna Berbatov félag sem tekur þátt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

„Framtíð hans mun ráðast á næstu mánuðum. Við höfum tvisvar hætt viðræðum við Tottenham um nýjan samning þar sem félagið er ekki viljugt til að fastsetja söluverð á hann."

„Hann er 27 ára gamall og þarf að vinna titla. Það er kominn tími til þess að hann fari til félags sem spilar reglulega í Meistaradeild Evrópu. Það eru sjö eða átta félög sem hafa áhuga á honum sem við þekkjum vel til."

Berbatov hefur áður verið sterklega orðaður við bæði Manchester United og Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×