Fótbolti

Skotar hafa alltaf unnið Íslendinga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári og Christian Dailly í baráttunni á Hampden Park í Glasgow árið 2003.
Eiður Smári og Christian Dailly í baráttunni á Hampden Park í Glasgow árið 2003. Nordic Photos / Getty Images

Í þau fjögur skipti sem Ísland og Skotland hafa mæst á knattspyrnuvellinum hafa Skotar alltaf borið sigur úr býtum.

Skotar komu þó fyrst í heimsókn með landslið skipað áhugamönnum í júlí árið 1964 og unnu þá, 1-0. Síðan þá hafa liðin mæst fjórum sinnum í undankeppnum stórmóts í knattspyrnu.

Paul McStay skoraði tvívegis og Charlie Nicholas einu sinni í 3-0 sigri Skota á Íslendingum á Hampden-leikvanginum árið 1984 í undankeppni HM 1986.

Síðari viðureigninni, sem fór fram á Laugardalsvellinum, lauk með 1-0 sigri Skota. James Bett, faðir Valsmannsins Baldurs og Calum Þórs sem leikur með Hvöt, skoraði eina mark leiksins.

Liðin voru svo saman í riðli í undankeppni EM 2004. Skotar unnu báða þá leiki, hér heima 2-0 með mörkum Christian Dailly og Gary Naysmith, og 2-1 ytra. Kenny Miller kom Skotum yfir en Eiður Smári Guðjohnsen jafnaði metin. Lee Wilkie skoraði svo sigurmark leiksins.

Mark Eiðs Smára er því eina íslenska markið gegn Skotum í þessum leikjum.

Þessi töp gegn Skotum reyndust dýrkeypt því Ísland endaði í þriðja sæti riðilsins með þrettán stig, einu á eftir Skotum. Ísland mætti Þýskalandi í Hamborg í lokaumferð riðlakeppninnar og hefði með sigri tryggt sér annað sæti riðilsins.

Ísland tapaði hins vegar 3-0 og á sama tíma unnu Skotar 1-0 sigur á Litháum.

Tapleikurinn gegn Þýskalandi og töpin tvö gegn Skotum voru einu töp liðsins í riðlakeppninni.

Steven Pressley verður væntanlega í eldlínunni með Skotum á miðvikudagskvöldið en hann man vel eftir síðasta leik liðanna í Reykjavík. Þá lék hann sinn fyrsta landsleik í byrjunarliði Skota.

Skotar voru þá nýbúnir að gera 2-2 jafntefli við Færeyjar og eftir leikinn gagnrýndi þáverandi landsliðsþjálfari, Berti Vogts, nokkra leikmenn harkalega eftir leikinn. Það líkaði David Weir ekki og dró hann sig úr hópnum í mótmælaskyni.

Það þýddi að Pressley fékk tækifærið en hann hafði aðeins komið inn á sem varamaður í einum leik á undan.

„Þetta var góð reynsla fyrir mig og við spiluðum mjög vel. Ég á því góðar minningar frá Íslandi. Sumarið - ef það er eitthvað slíkt til á Íslandi - er nú á enda þar en ég býst ekki við öðru en að aðstæðurnar verði mjög góðar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×