Innlent

Útilokar ekki launalækkun hjá sjálfum sér

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, útilokar ekki að laun sín og annarra starfsmanna Ríkisútvarpsins verði lækkuð.

Páll var gestur Íslands í dag ásamt Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Skjásins, en Skjárinn tilkynnti í morgun að öllum starfsmönnum fyrirtækisins hafi verið sagt upp. Skjárinn sér um rekstur SkjásEins.

Aðspurður sagði Páll vel koma til greina að laun sín verði lækkuð sem og annarra starfsmanna RÚV. Samningar muni þó standa.

Ríkisútvarpið hefur gengið hart fram á auglýsingamarkaði undanfarið og veitt umtalsverða afslætti. Páll sagði að RÚV væri ekki að gera neitt ólöglegt. ,,Við getum verið með hvaða auglýsingakjör sem við viljum."

Til þess að starfsemi SkjásEins geti haldið áfram þarf tvennt að gerast að mati Sigríðar. Annars vegar þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um að hér ríki eðlilegt samkeppnisumhverfi. Hins vegar þarf SkjárEinn að endursemja við erlenda birgja þegar gjaldeyrisviðskipti komast í lag.

Tilvera RÚV á auglýsingmarkaði er ekki ný breyta í rekstri SkjásEins, að mati Páls.










Tengdar fréttir

Vill takmarka auglýsingar á RÚV

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, telur ástæðu vera til að hafa gífurlegar áhyggjur af ástandi íslenskra fjölmiðla í ljósi núverandi efnahagsástands.

Skjárinn segir öllum upp

Skjárinn, sem sér um rekstur SkjásEins, hefur sagt upp öllum sínum starfsmönnum. „Í ljósi mikils samdráttar á auglýsingamarkaði, ójafnrar samkeppni frá RÚV og óvissu um innkaupsverð á sjónvarpsefni frá útlöndum hefur Skjárinn tilkynnt öllum starfsmönnum sínum að þeim verði sagt upp frá og með 1. nóvember,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Framkvæmdastjórinn segist vonast til að úr rætist þannig að uppsagnirnar þurfi ekki að taka gildi. Hjá Skjánum eru 40 fastráðnir og fimm verktakar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×