Innlent

Hekla seldi tvo nýja bíla í síðustu viku

Breki Logason skrifar
Jón Trausti Ólafsson markaðsstjóri Heklu.
Jón Trausti Ólafsson markaðsstjóri Heklu.

Mikill samdráttur hefur verið í sölu á nýjum bílum í október. Í síðustu viku var seldur 21 nýr bíll á Íslandi. Jón Trausti Ólafsson markaðsstjóri Heklu staðfestir í samtali við Vísi að einungis tveir nýir bílar hafi selst hjá fyrirtækinu á sama tíma. Hann segir Heklu hinsvegar hafa fengið mikil viðbrögð erlendis frá við nýjum vef sem opnaður var á fimmtudaginn.

„Því miður er þetta það umhverfi sem við búum við í dag. Það eru að vísu enn í boði lánsfyrirgreiðslur í íslenskum krónum hjá fjármálafyrirtækjum, það eru hinsvegar vaxtakjör sem fáir eru tilbúnir til að leggja á sig," segir Jón Trausti sem staðfestir að einungis tveir nýir bílar hafi verið seldir hjá fyrirtækinu í síðustu viku.

Vikuna þar á undan seldi Hekla 6 nýja bíla en þá seldist einnig 21 nýr bíll í landinu.

Aðspurður til hvaða aðgerða menn ætli að grípa segir Jón Trausti að meðal annars hafi verið opnaður vefur fyrir notaða bíla sem hefur fengið mikil viðbrögð.

„Þar erum við að leggja áherslu á notaða bíla sem við flytjum úr landi til norðurlandanna, við bjóðum upp á flutning til sjö hafna. Það hefur verið mikil svörun að utan og tugir þúsunda hafa skoðað vefinn."

Jón Trausti segir að það sem komi hinsvegar í veg fyrir að þessi viðskipti fari á fullt sé það að stjórnvöld hafa ekki ennþá gengið frá því sem þeir hafa verið að tala um og snýr að endurgreiðslu á vörugjöldum og virðisaukaskatti.

„Ef það gerist mun það gera mikið fyrir íslensk bílaumboð og fyrirtæki en ekki síst fyrir einstaklinga sem eru að reyna að selja bílana sína úr landi."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×