Innlent

Enn óvissa 16 dögum eftir að myntkörfulán voru fryst

Sextán dagar eru síðan ríkisstjórnin krafðist þess að ríkisbankarnir frystu afborganir landsmanna af myntkörfulánum. Enn ríkir alger óvissa um hvort eitthvað verði gert til að mæta vanda þeirra sem tóku lán í íslenskum krónum.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra skipaði á mánudaginn fimm manna sérfræðingahóp til að kanna ,,hvort og þá hvaða leiðir séu færar til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar."

Formaður hópsins er jafnframt forseti Alþýðusambands Íslands, Gylfi Arnbjörnsson. Fréttastofa náði tali af honum í dag - en hann vildi engar upplýsingar veita um það hvenær von gæti verið á tillögum frá hópnum.

Heimilin í landinu skulda nú um 1400 milljarða króna í verðtryggðum lánum. Verðtryggðar skuldir heimilanna hækkuðu um 30 milljarða á einum mánuði þegar verðbólgan komst í 15,9% eftir bankahrunið. Gangi spár hagfræðinga ASÍ eftir, hækkar verðbólgan upp í um 20% um áramótin. Þá munu verðtryggðar skuldir heimilanna enn hækka. Verðtryggðar skuldir heimilanna eru tífalt hærri en gengislána, sem eru um 150 milljarðar króna.

Ríkisstjórnin brást skjótt við vanda þeirra sem eru með erlend myntkörfulán. 14. okt. beindi hún þeim tilmælum til ríkisbankanna að frysta afborganir skuldara á myntkörfulánum. Síðan eru liðnir 16 dagar og enn er þorri íslenskra skuldara í fullkominni óvissu um hvort og þá hvað verður gert til að mæta vanda þeirra sem skulda verðtryggðar íslenskar krónur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×