Innlent

Vill takmarka auglýsingar á RÚV

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, telur ástæðu vera til að hafa gífurlegar áhyggjur af ástandi íslenskra fjölmiðla í ljósi núverandi efnahagsástands.

Í morgun var tilkynnt að Skjárinn, sem sér um rekstur SkjásEins, hefur sagt upp öllum sínum starfsmönnum. Til þess að starfsemi fyrirtækisins geti haldið áfram þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um að hér ríki eðlilegt samkeppnisumhverfi, sambærilegt við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum, að mati Sigríðar Margrétar Oddsdóttur framkvæmdastjóra.

,,Ég vil takmarka auglýsingar í Ríkisútvarpinu en það er ekki sama hvernig það er gert. Við erum að bíða eftir niðurstöðu skoðunar Samkeppniseftirlitsins á auglýsingamarkaðnum," sagði Þorgerður Katrín í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrr í dag.

Þorgerður Katrín fullyrti að Ríkisútvarpið hafi ekki verið að auka hlut sinn á auglýsingamarkaði.

,,Ég get ekki hugsað til enda ef það verður eingöngu einn ríkisfjölmiðill í ljósvakamiðlum," sagði Þorgerður Katrín og bætti við að ríkisvaldið verði að vera reiðubúið að bregðast hratt við. Sjálf hefur hún ákveðið að biðja Samkeppniseftirlitið að hraða sinni úttekt.






Tengdar fréttir

Skjárinn segir öllum upp

Skjárinn, sem sér um rekstur SkjásEins, hefur sagt upp öllum sínum starfsmönnum. „Í ljósi mikils samdráttar á auglýsingamarkaði, ójafnrar samkeppni frá RÚV og óvissu um innkaupsverð á sjónvarpsefni frá útlöndum hefur Skjárinn tilkynnt öllum starfsmönnum sínum að þeim verði sagt upp frá og með 1. nóvember,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Framkvæmdastjórinn segist vonast til að úr rætist þannig að uppsagnirnar þurfi ekki að taka gildi. Hjá Skjánum eru 40 fastráðnir og fimm verktakar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×