Innlent

Lekinn í Glitni rannsakaður

Nýi Glitnir rannsakar nú hvort starfsmaður bankans hafi lekið í Morgunblaðið trúnaðarupplýsingum um milljarðlán Gamla Glitnis. Málinu hefur einnig verið vísað til Fjármálaeftirlitsins sem gæti vísað því áfram til lögreglu.

Í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu á sunnudaginn var rætt um milljarðalán og fjallað um upplýsingar sem sagðar voru úr lánabók Gamla Glitnis. Talað var um meint brot á verklagsreglum vegna lánveitinga. Nýi Glitnir hefur tilkynnt Fjármálaeftirlitinu um meint brot á þagnarskylduákvæðum laga um fjármálafyrirtæki í tengslum við þessa grein.

Tómas Sigurðsson, yfirlögfræðingur bankans, segir málið tvíþætt og lúti að þeim sem hafi látið blaðinu upplýsingar í té og að blaðinu fyrir að birta þær.

Í lögum segi að sá sem taki við slíkum upplýsingum sé bundinn þagnarskyldu á sama hátt og starfsmenn bankans.

Tómas segir það nú Fjármálaeftirlitsins að ákveða næsta skref í málinu. Hvort því verði vísað til lögreglu eða hvort ákveðið verði mögulega að beita sektum. Tómas segir ekki vitað hver hafi lekið upplýsingunum, hvort það hafi verið núverandi eða fyrrverandi starfsmaður bankans eða þá yfir höfuð starfsmaður nýja eða gamla glitnis. Nýi Glitnir leiti hins vegar þess sem lak upplýsingunum og málið í rannsókn.

Tómas segir ekki nema sjálfsagt að viðskipti gömlu bankanna verði rannsökuð ítarlega en ómögulegt að bankaleynd sé aflétt með þeim hætti að fjölmiðlar birti upplýsingar án þess að um þær sé fjallað á réttum vettvangi fyrst. Meðan lögin séu eins og þau eru verði bankarnir að standa vörð um hagsmuni viðskiptavina samkvæmt þeim. Tómas telur að með því að setja lagaákvæði um vernd fyrir uppljóstrara úr bönkunum sé í raun verið að aflétta bankaleynd með ákveðnum hætti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×