Fótbolti

Domenech örvæntir ekki

AFP

Raymond Domenech, landsliðsþjálfari Frakka, neitar að örvænta þó hans menn hafi fengið óvæntan 3-1 skell gegn Austurríki í fyrsta leik sínum í undankeppni HM í gær.

Domenech þótti mjög valtur í sessi eftir EM í sumar og ekki voru úrslitin í gær til að styrkja stöðu hans hjá franska landsliðinu.

Orðrómur er á kreiki um að franska sambandið hafi gert kröfu um ákveðinn stigafjölda úr þremur fyrstu leikjum liðsins í undankeppninni og að Domenech yrði látinn fjúka ef það takmark næðist ekki.

Austurríkismenn nýttu sér tvö varnarmistök hjá Frökkum í gær og skoruðu þriðja markið úr vítaspyrnu. Tvö markanna voru skrifuð á varnarmanninn Philippe Mexes.

Þjálfarinn neitar hinsvegar að örvænta þó fyrsti leikurinn hafi farið illa.

"Undankeppnin snýst um að safna stigum, ekki einstaka leiki. Það sagði enginn að þetta yrði auðveld keppni, sérstaklega ekki ég. Nú eigum við mikilvægan leik fyrir höndum gegn Serbum á miðvikudaginn og verðum að vera tilbúnir í hann," sagði Domenech.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×