Fótbolti

Scotty: Myndi veðja á Ísland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Scott Ramsay, leikmaður Grindavíkur.
Scott Ramsay, leikmaður Grindavíkur. Mynd/Vilhelm

Scott Ramsay, leikmaður Grindavíkur, myndi frekar veðja á íslenskan sigur gegn Skotum á miðvikudaginn en hitt. Hann ætlar að sitja með íslenskum áhorfendum á leiknum.

„Ég er auðvitað enn stuðningsmaður Skota en ég hef það á tilfinningunni að Ísland muni vinna þennan leik. Ef ég ætti að setja pening undir leikinn myndi ég frekar veðja á Ísland," sagði Scott sem kom hingað til lands árið 1996 frá Skotlandi.

„Skotar voru óheppnir að ná ekki lengra í síðustu undankeppni eftir að þeir unnu Frakka tvisvar. En það er ljóst að ef þeir vinna ekki á miðvikudaginn verða vonir þeirra um að komast á HM mjög litlar. Ég býst við mjög jöfnum leik."

Skotland spilaði síðast hér á landi árið 2002 en þá var Scott á meðal áhorfenda. „Ég og (Paul) McShane fórum á leikinn og sátum með skosku áhorfendunum. Ég ætla þó að sitja með Íslendingum núna."

Skoska úrvalsdeildarliðið Inverness CT sendi Grindvíkingum fyrirspurn nú í haust vegna Scott. Ekkert varð úr því að hann hefði verið lánaður til félagsins.

„Þetta var bara mál á milli félaganna. Það hefði vissulega verið mjög gaman að fara enda mörg ár síðan ég spilaði síðast í Skotlandi. En þetta var ekki mín ákvörðun og er ég mjög sáttur við að vera áfram í Grindavík," sagði Scott.

Hann hefur verið einn allra besti leikmaður Landsbankadeildarinnar í sumar og fyrst skoskt úrvalsdeildarlið spurðist fyrir um hann er eðlilegt að velta fyrir sér hvort að George Burley landsliðsþjálfari hafi eitthvað fylgst með kappanum.

„Ertu að grínast? Það er ekki séns á því. Þú skalt ekki einu sinni reyna þetta," sagði hann og hló.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×