Fótbolti

Vogts ætlar að hjálpa Burley fyrir Íslandsleikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Berti Vogts, landsliðsþjálfari Asera.
Berti Vogts, landsliðsþjálfari Asera. Nordic Photos / AFP

Berti Vogts hefur boðist til að hjálpa til og afhenda George Burley, landliðsþjálfara Skota, öll hans gögn um íslenska liðið fyrir leik Íslands og Skotlands á miðvikudaginn.

Vogts er landsliðsþjálfari Aserbaídsjan sem gerði 1-1 jafntefli við Ísland á Laugardalsvelli í síðasta mánuði. Þjóðverjinn Vogts er einnig fyrrum landsliðsþjálfari Skota.

Skotar töpuðu fyrsta leik sínum í riðlinum í undankeppni HM 2010 fyrir Makedóníu á útivelli, 1-0, á meðan að Ísland náði 2-2 jafntefli gegn Noregi á útivelli á laugardaginn.

Burley hefur nú ekki unnið leik sem landsliðsþjálfari Skota í sínum fyrstu fjórum leikjum, rétt eins og gerðist hjá Vogts. Skotar hafa ekki unnið leik í ellefu mánuði eða í síðustu sex leikjum sínum.

„Við fórum til Reykjavíkur fyrir þremur vikum síðan og ég er viss um Skotland sé fært um að vinna þennan leik," sagði Vogts. „Ég hef í raun aðeins tólf leikmenn í mínum röðum sem geta spilað alþjóðlega knattspyrnu en við náðum 1-1 jafntefli og hefðum jafnvel getað unnið leikinn."

„Íslenska liðið er ekki eins gott og það var fyrir nokkrum árum. Ef einhver úr skoska þjálfaraliðinu vill mína aðstoð er ég meira en viljugur að hjálpa til."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×