Enski boltinn

Afonso Alves er leikmaður 38. umferðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Afonso Alves fagnar einu marka sinna um helgina.
Afonso Alves fagnar einu marka sinna um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Brasilíumaðurinn Afonso Alves er leikmaður lokaumferðar ensku úrvalsdeildarinnar en hann skoraði þrjú mörk í 8-1 stórsigri Middlesbrough á Manchester City.

Smelltu hér til að sjá myndband af Afonso Alves, leikmanni 38. umferðar.

Alves kom frá hollenska úrvalsdeildarfélaginu SC Heerenveen í janúar síðastliðnum en hann er nú orðinn 27 ára gamall. Hann hóf feril sinn með Atletico Mineiro í heimalandi sínu en árið 2002 fór hann til Svíþjóðar þar sem hann var í fjögur ár og lék bæði með Örgryte og Malmö.

Þess má geta að árið 2005, er Alves lék með Malmö, var hann næstmarkahæstur í sænsku úrvalsdeildinni, tveimur færri en íslenski landsliðsmaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson.

Hann var hins vegar markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar í fyrra er hann skoraði 34 mörk sem er félagsmet hjá Heerenveen. Alves er þó líklegar frægari fyrir mörkin sjö sem hann skoraði í einum og sama leiknum fyrir Heerenveen í október síðastliðnum.

Það var mikið rætt og ritað um félagaskipti Alves og sér reyndar enn ekki fyrir endann á því máli. Alves var sagður hafa skrifað undir samning við AZ Alkmaar áður en félagaskiptaglugginn opnaði í síðasta mánuði en hann var svo seldur til Middlesbrough á lokadegi félagaskiptagluggans.

Forráðamenn AZ hafa sagt að þeir hyggjast leita réttar síns fyrir dómstóli.

Nafn: Afonso Alves Martins Júnior.

Fæddur: 30. janúar 1981 í Brasilíu.

Númer: 12

Félög: Atletico Mineiro, Örgryte, Malmö, Heerenveen og Middlesbrough.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×