Enski boltinn

Benitez lætur Megson ekki stjórna sér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez, stjóri Liverpool.
Rafael Benitez, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Rafael Benitez gefur lítið fyrir þær beiðnir Gary Megson, stjóra Bolton, um að stilla upp sínu sterkasta liði gegn Fulham á morgun.

Bolton á í harðri fallbaráttu við Fulham en bæði lið eru í fallsæti sem stendur. Í fyrra tapaði Liverpool fyrir Fulham og var Benitez í kjölfarið gagnrýndur fyrir stilla ekki upp sínu sterkasta liði af Sheffield United sem féll svo um vorið.

Liverpool á hins vegar erfiðan leik gegn Chelsea í Meistaradeildinni fyrir höndum í næstu viku og því viðbúið að Benitez muni hvíla einhverja af sínum sterkustu leikmönnum, svo sem Fernando Torres.

„Ég mun hugsa eitthvað um leikinn gegn Chelsea," sagði Benitez. „Ég er með leikmenn sem ég vil ekki hætta á að missa í meiðsli og ég er með nægilega góðan leikmannahóp til að vinna Fulham."

„Liðin hafa 38 leiki á tímabilinu og tel ég það nóg. Hver og einn ber ábyrgð á eigin heppni," bætti hann við.

„Liverpool mun hafa mikið að segja um hvaða lið falla úr deildinni," sagði Megson. „Við vonum að Rafa Benitez haldi heiðri deildarinnar á lofti þegar hann velur í liðið sitt."

En Benitez sagði að Bolton hefði gert slíkt hið sama þegar það átti leiki í UEFA-bikarkeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×