Innlent

37 milljónir sendar til Kongó

Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands.
Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands.

Rauði kross Íslands hefur sent 37 milljónir króna til leitarþjónustuverkefnis Rauða krossins í Kongó sem stuðlar að því að sameina fjölskyldur sem hafa sundrast vegna átaka.

Þörfin fyrir leitarverkefni Rauða krossins í Kongó er mikil. Átök milli stjórnarhers og uppreisnarhermanna í norðurhluta landsins hafa blossað upp undanfarna daga og vikur og tugþúsundir manna hafa orðið að flýja á nýjan leik. Borgarastyrjöld hefur geisað í landinu síðan árið 1998.

Rúmar 18 milljónir söfnuðust í landssöfnun Rauða krossins Göngum til góðs sem haldin var 4. október. Í ljósi þess að aðeins safnaðist um helmingur þeirrar upphæðar sem fékkst í landssöfnuninni árið 2006 ákvað stjórn Rauða krossins að tvöfalda þá upphæð með framlagi úr neyðarsjóði félagsins til að standast væntingar Alþjóða Rauða krossins. Þrátt fyrir erfiða stöðu telur Rauði krossinn mjög mikilvægt að standa við skuldbindingar sínar í alþjóðlegum verkefnum.

,,Við vissum að það var á brattann að sækja vegna efnahagsástandsins í landinu. Við erum því ákaflega þakkát þeim sjálfboðaliðum sem lögðu okkur lið og örlæti þeirra sem gáfu," segir Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands, í tilkynningu.

,,Við erum þakklát landsmönnum fyrir að sýna samhug með verkefnum Rauða krossins í Kongó þrátt fyrir erfiða tíma. Það er mikilvægt að geta veitt öðrum þjóðum sem búa við erfið skilyrði aðstoð þó á móti blási á Íslandi, og samstaðan með þeim er ekki síður mikilvæg en það fé sem safnaðist," segir Anna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×