Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri-grænna, segir Jórunni Frímannsdóttir, formann velferðarráðs, hafa fengið sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkur með sér í ,,pólitískan slag." Saman hafa þær skrifað greinar um búsetuúrræði með félagslegum stuðningi sem hafa verið í umræðunni seinustu vikur.
Þetta kemur fram í grein sem Þorleifur skrifaði í 24 stundir og birtist í dag.
Stella Víðisdóttir var ráðin sviðsstjóri í tíð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þorleifur segir að ráða hafi átt á sviðstjóra en ekki ,,pólitíska aðstoðarkonu" og saman segir hann þær haldi á lofti stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Þorleifur segir Stellu hafa áður tekið af öll tvímæli um skoðanir sínar í bréfi til innri endurskoðanda Reykavíkjur þar sem hún segir að velferðarsvið hafi leitað til Heilsuverndarstöðvarinnar varðandi rekstur meðferðarheimilis til að styðja við þróun og samkeppni á markaði í félags- og heilbrigðisþjónustu.
Tilboð Heilsuverndarstöðvarinnar í reksturinn var hærra en tilboð SÁÁ.
Þorleifur segir sviðstjórann ekki hafa umboð til að markaðssetja velferðarkerfið í Reykjavík. ,, Slíka stefnu verður að sjálfsögðu að marka í borgarstjórn og það er mikill vafi á að hún yrði samþykkt þar," segir Þorleifur.
Í lok greinarinnar segir Þorleifur að stjórnmálafólk sem geri ekki greinarmun á pólitík og viðskiptum hafi nú kortlagt velferðarkerið og ákveðið að sækja þangað verkefni fyrir einkaaaðila til að hagnast á.