Erlent

Er glerið frá Kristalsnóttinni fundið ?

Óli Tynes skrifar
Yaron Svoray heldur á glerbroti með Davíðsstjörnunni.
Yaron Svoray heldur á glerbroti með Davíðsstjörnunni. MYND/AP

Ísraelskur rannsóknarblaðamaður telur hugsanlegt að hann hafi fundið ruslahauginn þar sem glerið frá Kristalsnóttinni var urðað árið 1938. Kristalsnóttin var upphafið á ofsóknum nazista á hendur gyðingum.

Kristalsnóttin stóð raunar í tvo sólarhringa, níunda og tíunda nóvember árið 1938. Það vantar því aðeins nokkra daga upp á að sjötíu ár séu liðin frá því þetta gerðist.

Morð og misþyrmingar

Stormsveitarmenn og æstir nazistar réðust þá á heimili, verslanir og bænahús gyðinga og auðvitað á þá sjálfa. Níutíu og tveir þeirra voru myrtir og milli 25 og 30 þúsund handteknir og sendir í fangabúðir.

Ástæðan fyrir nafninu Kristalsnótt var sú að rúður voru brotnar í yfir 7500 verslunum gyðinga í Berlín og allt brotið og bramlað sem í þeim var. Fjögurhundruð bænahús voru brennd víðsvegar um landið.

Þetta skildi náttúrlega eftir heilu fjöllin af glerbrotum sem þurfti að losna við.

Margar Davíðs stjörnur

Ísraelski rannsóknarblaðamaðurinn Yaron Svoray var að leita að flugvélarflaki frá stríðsárunum í hinu mikla skóglendi norður af Berlín.

Íbúar á svæðinu bentu honum á gamlan ruslahaug sem hafði verið notaður undir sorp frá Berlín á árunum 1935-1945. Þar var óvenjumikið af gleri.

Svoray þurfti ekki að grafa djúpt til þess að finna gler, og óvenju mikið af því var skreytt með Davíðs stjörnunni.

Ísraelinn telur talsverðar líkur á að þetta gler sé frá Kristalsnóttinni, og vill láta rannsaka staðinn nánar.

Refsað vegna nauðgana en ekki fyrir þær

Þýskur fornleifafræðingur sem hefur eftirlit með niðurgröfnum fornminjum segist munu skoða málið.

Engum var refsað fyrir atburði þessarar nætur nema stormsveitarmönnum sem nauðguðu gyðingakonum.

Þeim var þó ekki refsað fyrir nauðganirnar heldur fyrir að brjóta Nuremberg lögin svokölluðu sem bönnuðu kynferðislegt samneyti aría og gyðinga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×