Enski boltinn

Horfa á Rocky til að koma sér í gírinn

Leikmenn Havant fagna sigrinum á Swansea
Leikmenn Havant fagna sigrinum á Swansea Nordic Photos / Getty Images

Leikmenn utandeildarliðsins Havant & Waterlooville fá nú að upplifa það að vera stjörnur í enska boltanum í nokkra daga áður en þeir mæta Liverpool á Anfield í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar.

Havant & Waterlooville leikur í næstefstu deild í utandeildarkeppninni eða í sjöttu efstu deild í deildarfyrirkomulaginu í Englandi og enginn reiknaði með því að liðið næði að slá Swansea út úr keppni í þriðju umferðinni.

Liðið vann hinsvegar 4-2 sigur og fengu leikmennirnir að launum ferð til Las Vegas í vor, en leikmennirnir eru allir áhugamenn.

Þjálfarinn Jeremy Lazarus þarf vitanlega ekki að hafa mikið fyrir því að koma leikmönnum sínum í rétta gírinn fyrir þennan stórleik um næstu helgi, en hann segir að þeir séu allir að horfa á hnefaleikamyndirnar um Rocky um þessar mundir til að sækja sér hetjuinnblástur.

"Rocky-myndirnar snúast allar um það að sigrast á mótlæti og enski bikarinn snýst allur um sjarmann í íþróttum. Ef ég næ að stimpla óttaleysi inn í hópinn, gætum við kannski sett á svið ein óvæntustu úrslit í sögu íþrótta - hver veit," sagði þjálfarinn í samtali við News of the World. 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×