Innlent

Krefst erlendrar rannsóknar á störfum Seðlabankans

MYND/Arnþór

Davíð Odddsson seðlabankastjóri krefst þess að fram fari ítarleg rannsókn á vegum erlendra aðila á störfum Seðlabankans í aðdraganda bankahrunsins. Komi í ljós að mistök hafi verið gerð þurfi ekki að reka neinn, menn muni segja af sér.

Þetta kom fram í ræðu Davíðs á árlegum morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands sem að þessu sinni bar yfirskriftina Fjármálakreppan - er lausn í sjónmáli? Davíð fór yfir það í ræðu sinni að Seðlabankinn hefði ítrekað varað við í hvað stefndi, bæði út á við og inn á við, en bankarnir hefðu ætíð svarað því að staða þeirra væri sterk. Þá sagði seðlabankastjóri enn fremur að fjölmiðlar hefðu lítið gert úr varnaðarorðum Seðlabankans. Áróðursmaskína hefði verið notuð grímulaust eins og verðlaunasjónvarpsmaðurinn Egill Helgason hefði bent á.

Davíð vitnaði enn fremur til fundar sem forsvarsmenn Seðlabankans hefðu átt í London í febrúar með erlendum bankamönnum og greiningaraðilum. Þar hefðu hinir erlendu aðilar spurt hvað myndi gerast ef íslensku bankarnir hefðu ekki aðgang að lánsfé á mörkuðum. Það hefði verið ljóst af orðum þeirra að íslenska bankakerfið væri í mikilli hættu og seðlabankamönnum hefði brugðið mjög við það hvernig þessir aðilar sáu fyrir sér framtíðina á Íslandi. Sagði Davíð að fundað hefði verið með íslenskum ráðherrum þegar heim var komið og gert grein fyrir stöðunni. Þeir hefðu rætt við forsvarsmenn viðskiptabankanna sem aftur hefðu fullvissað þá um að fjármögnun þeirra væri tryggð.

Íslensku bankarnir lánuðu einum aðila þúsund milljarða

Davíð minntist einnig á að stjórnendur Seðlabankans væru efst á listanum yfir sökudólgana þessa dagana en á bak við þann áróður stæðu þeir sem mesta ábyrgð bæru. Tiltók hann enn fremur að íslensku bankarnir hefðu lánað einum aðila þúsund milljarða sem væri meira en eigið fé þeirra. Ef erlendir lánardrottnar bankanna hefðu vitað þetta hefðu þeir að líkindum lokað á lán. Sagði Davíð enn fremur óskiljanlegt að þessu hefði verið leyft að þróast svona.

Seðlabankastjóri benti enn fremur á að árið 1998, þegar hann var forsætisráðherra, hefði bankaeftirlitið verið flutt úr Seðlabankanum og yfir í Fjármálaeftirlitið. Seðlabankinn hefði eftir þetta ekki haft eftirlits- eða rannsóknarúrræði og hefði til að mynda ekki getað stöðvað stofnun útibúa í útlöndum á vegum viðskiptabankanna. Sagði hann að það kynnu að hafa verið mistök að flytja eftirlitið úr Seðlabankanum en ekki væri hægt að fást um það nú. Þá sagði hann það ljótan leit að kenna Seðlabankanum um allt sem aflaga hefði farið. Ef eignarhald á fjölmiðlum hefði verið skynsamlegra þá hefði sá ljóti leikur ekki tekist.

Segist vita hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögum

Davíð vék einnig að umtöluðu viðtali við hann í Kastljós skömmu eftir að neyðarlögin voru sett á Íslandi. Sagði hann það fásinnu að halda því fram að bresk stjórnvöld hefðu gripið til aðgerða gagnvart íslensku bönkunum vegna orða hans þar og sagði Breta aldrei hafa nefnt það sem ástæðu.

Sagði Davíð að honum væri kunnugt það hvers vegna Bretar hefðu gripið til þessara aðgera en það myndi koma fram síðar. Í umræðum eftir ræðu seðlabankastjóra spurði einn fundarmanna hvort Davíð bæri ekki að upplýsa hvers vegna Bretar hefðu gripið til aðgerðanna og vildi Davíð, sem sat úti í sal en ekki í pallborði, ekki svara því.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×