Innlent

Vilja aðildarviðræður við ESB og að Seðlabankastjórn víki

Samfylkingarfélag Borgarbyggðar vill að Davíð víki og félagar hans úr Seðlabankanum víki. .
Samfylkingarfélag Borgarbyggðar vill að Davíð víki og félagar hans úr Seðlabankanum víki. .
Bankastjórn og bankaráð Seðlabanka á að víkja frá tafarlaust, hefja á aðildarviðræður við ESB og fella á eftirlaunalögin úr gildi. Nái ríkisstjórnarflokkarnir ekki saman um ofantalin atriði á Samfylkingin að slíta stjórnarsamstarfinu og stuðla að því að boðað verði til Alþingiskosninga eins fljótt og auðið er. Þetta kemur fram í ályktun sem Samfylkingarfélag Borgarbyggðar samþykkti á dögunum.

Þar er sú staða hörmuð sem komin er upp í íslensku samfélagi og þess krafist að fram fari hlutlaus rannsókn á því hvað olli hruni efnahagslífsins. Þá telur félagið mikilvægt að Samfylkingin leiði það uppbyggingarstarf sem framundan er og fari á undan með góðu fordæmi með hag þjóðarinnar umfram sérhagsmuni að leiðarljósi.

Samfylkingarfélag Borgarbyggðar telur að stjórnvöld þurfi að taka af skarið og grípa til eftirfarandi bráðaaðgerða til að koma til móts við kröfur almennings:

· Bankastjórn og bankaráð Seðlabanka verið tafarlaust vikið frá sem og forystu fjármálaeftirlitsins þar sem þessir aðilar eru rúnir trausti bæði innanlands og utan.

· Eftirlaunalögin umdeildu verði þegar felld úr gildi. Það er ólíðandi að á sama tíma og almenningur stendur frammi fyrir mestu kjaraskerðingu í manna minnum njóti æðstu ráðamenn þjóðarinnar sérréttinda.

· Bankakerfið verði mannað fólki sem ekki ber á nokkurn hátt ábyrgð á þeim rekstrar- og stjórnunarafglöpum sem setti fjármálakerfi þjóðarinnar í þrot.

· Gengið verði lengra við björgun heimila í landinu en aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar boðar. Leitað verði allra leiða til að koma í veg fyrir að fasteignaeigendur verði skuldaþrælar um ókomna framtíð.

· Ákvörðun um að hefja aðildarviðræður við ESB liggi fyrir eigi síðar en í febrúar 2009. Samningsmarkmið verði vel skilgreind og aðildarviðræður hafnar eins fljótt og kostur er, þar sem lykiláherslan verði lögð á að tengja krónu við evru, m.a. í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að krónan verði aftur sett á flot. Slíkt hefði aðeins í för með sér enn frekari hörmungar fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og ekki síst sveitarfélögin sem sinna helstu grunnþjónustu í hverju samfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×